Árlegur nefndafundur Hestamannafélagsins Skagfirðings 21. nóv. 2019

Árlegur nefndafundur var haldinn s.l. fimmtudagskvöld í Tjarnarbæ.  Þangað mætti stjórn félagsins ásamt formönnum og nefndarfólki til að rekja viðburði ársins en ekki síður til að kynna verkefni næsta árs, ræða hugmyndir um framgang ýmissa mála og eiga almennar samræður um/við stjórn og hvert annað, um félagið.

Þetta eru alltaf mjög góðir fundir og aðdáunarvert hversu mikill hugur, kraftur og vilji er í félögum til að gera hag félagsins sem mestan. 

Núna eru 15 nefndir starfandi og á fjórða tug félaga sem þar sitja, skipuleggja og framkvæma m.a. hestaferðir, skemmtanir og safna styrkjum, sjá um allar keppnir allt árið um kring, sinna umhverfis og keppnisvöllum, sjá um eignir félagsins, stjórna miklu æskulýðsstarfi, kynna okkur nýjustu strauma og stefnur í hestafræðslu og námskeiðum og upplýsa okkur um allt sem er í gangi á þremur samfélagsmiðlum; Facebook- síðu, heimasíðu (skagfirðingur.is) og Instagram.

Það er því ekki vanþörf á að hittast og bera saman bækur. Styða og hvetja hvert annað en ekki síst að þakka þessum góða hópi sjálfboðaliða félagsins fyrir frábær störf á hverju ári, sem þau vinna fyrir okkur hin án þessa að við verðum þess vör.

Félagar Skagfirðings eru hvattir til að hafa samband við stjórn eða nefndir vilji þeir leggja hönd á plóg eða koma hugmyndum á framfæri.  Allar upplýsingar um  nefndir og stjórn má finna á heimasíðu félagsins (www.skagfirdingur.is).  Einnig hvetjum við félaga til að senda fréttir, sem á erindi hestafólk á netfangið: tolvunefnd@gmail.com.

Stjórnin

Deila færslu