4726E0C6-A568-4EFC-A6D0-C2F14707FFB6

Árshátíð og uppskeruhátíð Skagfirðings fór fram í gær, föstudag á Kaffi Krók. Eins og venja er voru knapar ársins hjá félaginu verðlaunaðir. Hér fyrir neðan má lesa um útnefnda knapa í hverjum flokki ásamt hluta af þeirra árangri í sumar.

Skagfirðingur hefur í nokkur ár verðlaunað félagsmann ársins, en það er sá félagsmaður sem hefur að óeigingirni og dugnaði verið boðinn og búinn til að sinna hinum ýmsu störfum og tekið þátt í félagsstarfinu að mikilli jákvæðni svo eftir er tekið. JÁ manneskja okkar í ár er Hörður Þórarinsson. Nú í ár geta krakkarnir okkar í æskulýðsdeildinni leigt hesta á námskeið félagsins og sér Hörður um umhirðu og hýsingu hrossana ásamt því að vera til taks fyrir krakkana fyrir námskeiðin, hann sér einnig um félagsheimilið okkar Tjarnarbæ en hann er einnig okkar maður í reiðhöllinni Svaðastöðum.

Félagsmaður ársins – Hörður Þórarinsson

Daniel Gunnarsson var útnefndur knapi ársins 2023 hjá hestamannafélaginu en hann átti góðu gengi að fanga á skeiðbrautinni og var hann einnig skeiðknapi ársins. Hann á fjórða (21.76) og sjötta (21.99) besta tímann í 250m skeiði í ár með systurnar Einingu og Kló frá Einhamri. Á Íslandsmóti var hann í þriðja og sjötta sæti í 250m skeiði, 2.sæti Meistaradeildar Líflands í 150m skeiði, 2.sæti í 150m skeiði Meistaradeildar KS og siguvegari gæðingaskeiðs. Hann var valinn í landslið Íslands á Heimsmeistaramótið og var fulltrúi félagsins í Hollandi þar sem hann og Eining enduðu í öðru sæti í 250m skeiði.

Daniel Gunnarsson – Knapi ársins 2023

Sigurður Heiðar Birgisson hlaut viðurkenningu frá félaginu í ár fyrir framúrskarandi árangur sinn með Hrinu frá Hólum en þau hafa náð frábærum árangri saman á skeiðbrautinni. Meðal annars voru þau í 5.sæti í 150m skeiði á Íslandsmóti og 3.sæti í 150m skeiði á Reykjavíkurmóti. Sigurður og Hrina eru í 2.sæti í WR FEIF lista yfir árið 2023 í 150m skeiði en þeirra bestu tímar í ár eru 14.37 sekúndur í 150m skeiði og 7.55 sekúndur í 100m skeiði.

Framúrskarandi árangur – Sigurður Heiðar Birgisson

Knapi ársins í áhugamannaflokki er Þóranna Másdóttir en hún var í 1.sæti í tölti á WR Hólamóti og 2.sæti í fjórgangi. Hún sigraði gæðingakeppnina í skagfirsku mótaröðinni og var í 3.sæti í fjórgangi.

Knapi ársins í áhugamannaflokki – Þóranna Másdóttir & aðstoðarkona

Knapi ársins í ungmennaflokki er Þórgunnur Þórarinsdóttir. Hún sigraði þrjár greinar á Hólamótinu í vor: fjórgang með Hnjúk frá Saurbæ og fimmgang og gæðingaskeiði með Djarf frá Flatatungu. Hún var í þriðja sæti í fimmgangi á Reykjavíkurmóti og náði frábærum árangri á Íslandsmóti í sömu grein þar sem hún sigraði B-úrslit og vann sig upp í 2.sæti. 

Knapi ársins í ungmennaflokki – Þórgunnur Þórarinsdóttir

Íþróttaknapi ársins er Mette Mannseth en hún sigraði fimm greinar á WR Hólamótinu í vor. Hún sigraði fimmgang á Kalsa frá Þúfum, fjórgang á Hannibal frá Þúfum, tölt á Stöku frá Hólum, slaktaumatölt á Blundi frá Þúfum og flugskeið á Vívaldí frá Torfunesi. Hún náði frábærum árangri í Meistaradeild KS þar sem hún sigraði þrjár greinar með heimaræktaða hesta. Á íslandsmótinu var hún í 6.sæti í slaktaumatölti með Blund frá Þúfum, 6.sæti í flugskeiði með Vívaldí frá Torfunesi og 9.sæti í fimmgangi með Kalsa frá Þúfum.

Íþróttaknapi ársins – Mette Mannseth (Gísli Gíslason tók við verðlaunum)

Gæðingaknapi ársins er Skapti Steinbjörnsson en hann keppti á Lokbrá og Lukku frá Hafsteinsstöðum í ár en hann sigraði A og B flokk á Stórmóti þjálfa, var í 2.sæti í B-flokki á Fákaflugi, 2.sæti í A-flokki á Félagsmóti Skagfirðings og 3.sæti í B- flokki.

Gæðingaknapi ársins – Skapti Steinbjörnsson

Stjórn Skagfirðings óskar öllum verðlaunahöfum innilega til hamingju með árangurinn!

Deila færslu