Screenshot 2024-02-15 at 20.27.52

Svar frá Hestamannfélaginu Skagfirðingi vegna skrifa Jóns Þorbergs Steindórssonar, formanns Gæðingadómarafélagsins.

Að undanförnu hefur Jón Þorberg skrifað opin bréf sem birt hafa verið í Eiðfaxa þar sem hann gagnrýnir störf margra sem starfa við mótahald í hestaíþróttum.

Fjöldi sjálfboðaliða kemur að framkvæmd allra móta á vegum hestamannafélaganna og eru væntanlega allir að gera sitt besta, fyrir sín félög og sportið í heild. Við hjá Hestamannafélaginu Skagfirðingi erum líkt og mörg önnur félög svo heppin að hópur sjálfboðaliða eru tilbúnir að eyða dýrmætum tíma sínum í þágu félagsstarfsins og þykir okkur mikilvægt að borin sé virðing fyrir fórnfýsi þeirra og störfum. 

Í fyrrnefndum skrifum beinir viðkomandi spjótum sínum sérstaklega að ákveðnu móti, svokölluðu ”Hólamóti” og ákveðnum einstaklingum. Hann gerir meðal annars tortryggilegt að sami aðili hafi verið mótsstjóri á WR móti, sitji í keppnisnefnd LH og stjórn LH. Þessi aðili, sem hann nefnir þó aldrei á nafn, er einn af okkar félagsmönnum.  Um er að ræða ungan félagsmann sem þó hefur unnið lengi að sjálfboðaliðastörfum, mótahaldi og fleiru í þágu félagsins.

Á WR mótinu á Hólum var umræddur einstaklingur einn af mótsstjórum og er bréfritari mjög upptekinn af framkvæmd þess móts. Mótið hefur verið yfirfarið af keppnisnefnd LH og fleirum og telst löglegt, einnig hefur yfirmaður WR-skráninga hjá FEIF staðfest þá niðurstöðu og telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við framkvæmd mótsins.

Mótið fór löglega fram og mótsskýrslan er rétt skráð í Sportfeng eins og hefur verið staðfest af FEIF. Hvað varðar hestamannafélagið Skagfirðing er þessu máli lokið. Við horfum björtum augum til móta tímabilsins og vonum að sjálfboðaliðar haldi áfram að leggja sitt af mörkum fyrir félög sín.

Virðingarfyllst,

Stjórn Hestamannafélagsins Skagfirðings

E.S.

Undirrituð var einn af mótsstjórum á WR mótinu á Hólum og Jón Þorberg er mjög upptekin af í gagnrýni sinni og mínum mörgu höttum í starfsemi fyrir hestamenn landsins.

Ég viðurkenni fúslega að ég er enginn sérfræðingur í mótahaldi, er alltaf að læra og fús til að taka við leiðbeiningum og tilsögn manna eins og hans, sem eru orðnir sérfræðingar í mótahaldi og öllu sem snýr að regluverki hestamennskunnar.  Meðan á lærdómsferli mínum stendur hef ég gert mistök og mun örugglega eiga það á hættu þar til ég telst fullnuma í þessum málum.

Þegar upp kom sú staða að dómari mótsins á Hólum hélt því fram að ekki væri heimild til að nota hlaupagæslumenn á mótum og öll sæti þyrftu að vera skipuð dómurum, hafði ég samband við dómara um að setja nafn sitt við mótið, sem var gríðarlega vanhugsað af minni hálfu.  Ég harma það að kappið hafi borið mig ofurliði og biðst innilega velvirðingar á þessari framhleypni minni og beini þeirri afsökunarbeiðni fyrst og fremst til þeirra sem þar blönduðust í málið.  Þetta var þó, sem betur fer, ekki mikill skaði fyrir félagið mitt eða mótið, þar sem í ljós kom að framkvæmd mótsins var lögleg og því ekki þörf á óvönduðu og óásættanlegu vinnulagi, sem reyndari samstarfsfélagar mínir hefðu hvort eð er ekki samþykkt. Ég hef lært mína lexíu af þessu og fer þetta klárlega í reynslu- og þekkingarbankann.

Mér þykir sárt að Jón Þorberg sé að gera tortryggilegt að ég hafi verið einn af mótstjórum þessa móts, ásamt því að sitja í keppnisnefnd LH og stjórn LH.  Ég hef, þrátt fyrir ungan aldur, unnið lengi í sjálfboðaliðastörfum í félagsmálum hestamanna og mótahaldi hjá mínu félagi. Á síðasta landsþingi LH hlaut ég það traust að vera kosin í stjórn LH, þrátt fyrir að í framboði hafi verið mikið af reyndu félagsmálafólki. Stjórn LH skipaði mig svo í keppnisnefnd og fyrir það traust og reynslu er ég þakklát. Ég mun hér eftir sem hingað til leggja metnað minn í að starfa af heilindum fyrir hestasamfélagið, sem ég hef verið kosin til að gera.

Unnur Rún Sigurpálsdóttir, Skagfirðingi

Deila færslu