Að verkefninu standa landsliðsnefnd, æskulýðsnefnd og menntanefnd LH. Páll Bragi Hólmarsson liðsstjóri landsliðsins var ráðinn verkefnisstjóri til 2ja ára


aðsent mynd


Í ár stofnaði Landsamband hestamanna afrekshóp ungmenna með það sem aðalmarkmið að undirbúa þau sem best til þátttöku á stórmótum hérlendis og erlendis.

Reiðkennsla og fræðsla á öllum sviðum keppnishestamennsku ásamt því að þjálfast upp í að vinna saman í hóp, er rauði þráðurinn í þessari vinnu.

Að verkefninu standa landsliðsnefnd, æskulýðsnefnd og menntanefnd LH. Páll Bragi Hólmarsson liðsstjóri landsliðsins var ráðinn verkefnisstjóri til 2ja ára.

60 umsóknir bárust og samanstendur hópurinn af 28 ungmennum sem voru valin út frá árangri í keppni.
Á þessu fyrsta ári hópsins var boðið upp á 3 námskeið.

Fyrsta námskeiðið var haldið í Borgarnesi dagana 21.-23. mars. Þar var byrjað á að vinna með hugarfarið og fengum við Jóhann Inga Gunnarsson íþróttasálfræðing í það verkefni.
Þá var farið yfir leiðarann í hestaíþróttum og hann krufinn með aðstoð tveggja íþróttadómara, þeirra Gísla Geirs Gylfasonar og Elvars Einarssonar
Verkleg reiðkennsla var síðan í höndum Þórarins Eymundssonar og Páls Braga Hólmarssonar þar sem hver og einn fékk aðstoð með sinn hest.

Annað námskeiðið var einnig haldið í Borgarnesi þann 29. apríl. Það var eins dags námskeið þar sem nemendur riðu æfingu/prógramm á vellinum og allt tekið upp á videó, dómari dæmdi og reiðkennari fylgdist með. Síðan var allt skoðað og farið í gegnum það sem mátti bæta og svo tekin önnur æfing og aftur tekið upp.
Kennarar á þessu námskeiði voru Þórarinn Eymundsson, Páll Bragi Hólmarsson og Elvar Einarsson.

Velvilji hestamannafélagsins Skugga gerði okkur kleift að æfa í frábærri aðstöðu í Borgarnesi endurgjaldslaust.

Þriðja og síðasta námskeiðið á þessu ári var haldið á Hólum í Hjaltadal dagana 28.-30. október. Þar var farið í grunnásetuæfingar, skeiðþjálfun, tilgang fimiæfinga, fóðrun keppnishesta og fleira. Námskeiðið samanstóð af fyrirlestrum, verklegum æfingum og sýnikennslu. Einnig fengum við að skoða sögusafnið með Kristni Hugasyni og fengum kynningu á námi skólans hjá Sveini Ragnarssyni.
Kennarar á því námskeiði voru þau Artemisia Bertus, Þorsteinn Björnsson, Þórarinn Eymundsson, Linda Rún Pétursdóttir og Guðrún Stefánsdóttir. 

Þess má geta að Hólaskóli lagði okkur til aðstöðu og skólahesta endurgjaldslaust og er þessi velvilji skólans gríðarlega mikilvægur fyrir okkur sem stöndum að afrekshópnum.

Með Kveðju Páll Bragi Hólmarsson.

Deila færslu