Fyrsta hestaferð Skagfirðings

Hið nýstofnaða hestamannafélag Skagfirðingur efndi til sinnar fyrstu ferðar sl. föstudagskvöld, á sjálfri Jónsmessunni. Veður var gott, hestar kátir sem og ferðafélagar sem tíndust saman hvaðanæva úr héraðinu.

Þó ferðahópurinn hafi ekki verið ýkja stór mætti fólk utan úr Fljótum, framan úr Blönduhlíð af Króknum og aldursforsetinn sjálfur sem kominn er vel á níræðisaldur, Svavar Hjörleifsson frá Lyngholti. Hófst ferðin um kvöldmatarleytið við Staðarrétt og riðið fram Sæmundarhlíð í Skarðsá, þaðan yfir Langholtið og í Torfgarð, fyrrum félagsheimili Stígandamanna. Þar var fírað upp í grillinu og boðið til veislu. Eftir borðhald, söng og sögustund héldu einhverjir áfram ferðinni út braut og á upphafsstað en aðrir hvíldu hross yfir nótt og riðu heim daginn eftir eða sóttu hross sín á kerru. Voru allir sammála um að góð ferð væri að baki sem lofar góðu um skemmtilegar ferðir félagsins í framtíðinni. Áætlaðar eru tvær aðrar ferðir í sumar, kirkjuferð um verslunarmannahelgina að Ábæ í Austurdal og svo þriggja daga ferð um Vatnsnes í Húnaþingi um miðjan ágúst.

Fyrir hönd ferðanefndar
Páll Friðriksson

Deila færslu