Laufskálaréttarhelgin er framundan
og sem fyrr stútfull af fjölbreyttum viðburðum.

Á morgun, föstudagskvöld, hefst veislan með stórsýningu og skagfirskri gleði í reiðhöllinni Svaðastöðum.

Meðal atriða stórsýningarinnar er ræktunarsýning Elínborgar og Vésteins frá Hofstaðaseli, Kolla og Karri frá Gauksmýri sýna hvað það er að vera glæsihestur.
Þá mæta þeir Siggi Sig. og Ævar Örn og framkvæma eitthvað spennandi
og einnig ætla Eyfirðingar að heilsa upp á nágranna sína með einhverju skemmtilegu. Þá verður haldin nýstárleg keppni, slaktauma-bjórtölt, og svo hefðbundin skeiðkeppni og veglegum verðlaunum.
Hinir einu sönnu Riddarar norðursins munu svo stjórna fjöldasöng.
Um kvöldið verður svo dúndurball með Stuðbandinu á Mælifelli og
í Menningarhúsinu Miðgarði lofa þeir Sigvaldi, Alex Már og Jón Gestur miklu dansstuði.

Á laugardeginum er svo sjálfur réttardagurinn þar sem stóðið er rekið úr Kolbeinsdal til Laufskálaréttar.
Þar gefst almenningi kostur á að taka þátt og eru áhugasamir hvattir til að mæta tímanlega við Laufskálarétt eða við hesthúsið Ástungu.
Réttarstörf hefjast kl. 13:00.

Um kvöldið verður svo blásið til réttarballs í reiðhöllinni þar sem hljómsveitin Von mun reyna að þeysa þakinu af kofanum.

Á sunnudeginum verða hrossabændur á Varmalandi og Íbishóli með opið hús og bjóða fólki að líta við. 

Deila færslu