61519588_10157174557227649_1044615473217404928_n.jpg

WR Íþróttamót Sleipnis var haldið frá 22.-26.maí síðastliðin.


Þar átti Skagfirðingur marga flotta fulltrúa.
Í fimmgangi meistaraflokki fór Þórarinn Eymundsson með þrjá hesta þá Hlekk frá Saurbæ, heimsmetshafann Þráinn frá Flagbjarnarholti og Veg frá Kagaðarhóli. Vegur og Þráinn tryggðu sér sæti í A-úrslit og stóð Þráinn efstur eftir forkeppni.

Skagfirðingur átti þrjá aðra fulltrúa í feiknasterkum fimmgangi en það var glæsiparið Sina Scholz og Nói frá Saurbæ sem tryggðu sér sæti í A-úrslitum, Magnús Bragi Magnússon með heimaræktaða gæðinginn Snilling frá Íbishóli en þeir tryggðu sér sæti í B-úrslitum og síðast en ekki síst Landsmóts og Íslandsmeistararnir Eyrún Ýr Pálsdóttir og Hrannar frá Flugumýri en þau tryggðu sér einnig sæti í B-úrslitum. Það fór svo að Eyrún Ýr og Hrannar sigruðu B-úrslitin og gott betur en það þar sem þau enduðu í 2.sæti í A-úrslitum með einkunnina 7,81 (7,69 B-úrslit)!! Magnús Bragi og Snillingur voru rétt á eftir Eyrúnu og Hrannari í B-úrslitunum og lokaeinkunn 7,45. Í A-úrslitum var hart barist en Þórarinn og Vegur hlutu fimmta sætið og einkunn upp á 7,524. Sina Scholz og Nói frá Saurbæ hlutu fjórða sætið með einkunnina 7,56!!

Í gríðarlegu sterku tölti kepptu einnig fulltrúar Skagfirðings en fyrst má nefna Þórarinn Eymundsson með Lauk frá Varmalæk en þeir enduðu í 9.sæti með einkunnina 7,67 (B-úrslit) og Veg frá Kagaðarhóli með einkunnina 7,23. Einnig gerðu Sina og Nói flotta sýningu og hlutu þau einkunnina 7,37.

Í gæðingaskeiði kepptu tveir Skagfirskir knapar og tveir Skagfirskir hestar. Magnús Bragi Magnússon og Snillingur frá Íbishóli enduðu í 5.sæti með einkunnina 7,29 og Þórarinn Eymundsson með Hlekk frá Saurbæ í 12.sæti með 7,04 í einkunn.

Í 150 metra skeiði sigraði Þórarinn Eymundsson með Gullbrá frá Lóni en þau fóru á tímanum 14,64 og í 2.sæti í 100m skeiði á tímanum 7,79!!

Í fimmgangi ungmenna keppti Ásdís Ósk Elvarsdóttir og tveimur hestum, þeim Laxnes frá Lambanesi (einkunn 5,67 og 8.sæti) og Roða frá Syðra – Skörðugili (einkunn 5,57 og 10.sæti) en hún keppti einnig í gæðingaskeiði ungmenna þar sem Laxnes hlaut 6.sæti og Hrappur frá Sauðárkróki 7.sæti.

Í fjórgangi ungmenna kepptu Viktoría Eik, Ásdís Ósk og Þórdís Inga Pálsdóttir. Viktoría Eik og Gjöf frá Sjávarborg endaðu í þriðja sæti með einkunnina 7,13 og Þórdís Inga Pálsdóttir með Njörð frá Flugumýri hlutu 5.sætið og einkunnina 7,07. Ásdís Ósk og Koltinna voru næstar inn í úrslit með einkunnina 6,83. Ásdís Ósk og Vísa frá Hrísdal enduðu í fjórða sæti í slaktaumatölti með einkunnina 7,13.

Að lokum var keppt í tölti ungmenna. Þar voru sömu Skagfirðingar að keppa. Ásdís Ósk og Koltinna frá Varmalæk sigruðu töltið með einkunnina 7,61 en rétt á eftir og í fjórða sæti voru Viktoría Eik og Gjöf frá Sjávarborg með einkunnina 7,33. Þórdís Inga og Njörður frá Flugumýri hlutu einkunnina 6,7 og 11.sæti.

61519588 10157174557227649 1044615473217404928 n
Mynd – Óðinn Örn Jóhannsson

Deila færslu